Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um niðurfellingu dráttarvaxta

[…]
[…]
[…]


Reykjavík 20. febrúar 2015
Tilv.: FJR15010066/16.2.3



Efni: Kæra vegna úrskurðar tollstjóra nr. 2/2012 og ákvörðunar um að hafna niðurfellingu dráttarvaxta.

Ráðuneytið vísar til kæru, dags. 4. janúar 2015, þar sem krafist er að úrskurður tollstjóra, nr. 2/2012, dags. 27. janúar 2012, verði felldur úr gildi og tollstjóra gert að leggja sjálfstætt mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði reglugerða varðandi eftirgjöf vörugjalds. Jafnframt krefst kærandi niðurfellingar dráttarvaxta.

Málavextir.
Tilefni kærumálsins er það að kærandi, sem stundar leigubifreiðaakstur, sótti þann 30. nóvember 2007 um lækkun vörugjalds í 10% af leigubifreiðinni [X] skv. 1. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Þann 3. desember 2007 undirritaði kærandi yfirlýsingu þar sem hann skuldbatt sig til að hlíta þeim skilyrðum, sem sett eru um nýtingu bifreiðarinnar, m.a. um lágmarkstekjur af leigubifreiðaakstri og skyldu til að senda tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslum skv. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum. Í yfirlýsingunni er jafnframt kveðið á um skyldu kæranda til greiðslu ógreidds vörugjalds, verði brotið gegn fyrrgreindum skilyrðum, sbr. 2. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar.

Með bréfi, dags. 5. janúar 2010, fór tollstjóri þess á leit við kæranda að hann skilaði staðfestu endurriti af skattskýrslum næstu tveggja ára eftir að eftirgjöf var veitt. Kærandi skilaði inn skattskýrslu fyrir tekjuárið 2008. Þann 28. apríl 2010 ákvað tollstjóri með vísan til þess að tekjur kæranda teldust ekki nægjanlegar að innheimta eftirgefið vörugjald að fjárhæð 1.319.954 kr.

Þann 12. október 2011 fór kærandi þess á leit við tollstjóra að hann endurskoðaði framangreinda ákvörðun sína um innheimtu vörugjaldsins frá 28. apríl 2010. Tollstjóri féllst á að taka málið upp að nýju og ákvarða samkvæmt þeim gögnum sem þá lágu fyrir þrátt fyrir að kærufrestur væri liðinn. Niðurstaða tollstjóra var á sömu lund og var innheimta vörugjalds af umræddri bifreið staðfest.

Ákvörðun þessi var kærð til tollstjóra sem, í samræmi við það sem að ofan er rakið, staðfesti með úrskurði nr. 2/2012, fyrri ákvörðun sína um álagningu 30% vörugjalds á leigubifreiðina TE-Z18 og innheimtu mismunar á vörugjaldinu, sem greitt var við tollafgreiðslu, og fulls vörugjalds auk virðisaukaskatts af mismuninum.

Kærandi fór fram á það, þann 25. ágúst 2013, að ríkisskattstjóri endurskoðaði álagningu gjaldársins 2009. Kærandi hafi látið lækka reiknað endurgjald sitt á árinu 2008 vegna heilsubrests og vitneskju um tekjutengingu hugsanlegra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Kvaðst hann ekki hafa séð fyrir að hann yrði krafinn um endurgreiðslu á eftirgefnum vörugjöldum vegna kaupa á bifreið til leiguaksturs, en hann hafi ekki tíundað áskilið reiknað endurgjald. Með úrskurði, dags. 24. mars 2014, synjaði ríkisskattstjóri beiðninni. Kom þar m.a. fram að ríkisskattstjóri taldi ekki efni til að fallast á breytingu á áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 2009 á þeim forsendum einum að hann hafi, að löngu liðnum kærufresti, kosið að endurmeta fyrri framtalsgerð. Þá var ekki talið að ný gögn eða upplýsingar lægju til grundvallar beiðni kæranda um endurskoðun og breytingar á fyrri framtalsskilum sínum.

Kærandi skaut úrskurði tollstjóra til ríkistollanefndar sem með úrskurði nr. 3/2012, dags. 22. október 2012, staðfesti hinn kærða úrskurð tollstjóra nr. 2/2012.

Málsástæður og lagarök kæranda.
Kærandi telur að ríkisskattstjóri hefði, að eigin frumkvæði, átt að hækka gjaldfært reiknað endurgjald hjá sér, sbr. 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Gjaldfært hafi verið lægra reiknað endurgjald en áskilið er skv. skattalögum og ríkisskattstjóri megi samkvæmt framangreindu ákvæði ekki mynda hærra tap með leiðréttingu sinni en nemi gjaldfærðum fyrningum sama rekstrarár.

Ríkisskattstjóra hafi borið að leiðrétta framtal 2008 með því að hækka reiknað endurgjald, enda hafi ytri aðstæður boðið upp á það, sbr. 96. og 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Um hafi verið að ræða beiðni er varðaði atvik sem ekki voru eldri en 6 ára, varðaði verulega hagsmuni og byggði á nýjum gögnum og upplýsingum.

Kærandi krefst þess að úrskurður tollstjóra um álagningu 30% vörugjalds á leigubifreiðina TE-Z18 og innheimtu mismunar á fjárhæð vörugjalds sem greitt var við tollafgreiðslu og fulls vörugjalds auk virðisaukaskatts af því verði felldur úr gildi. Þá verði tollstjóra gert að leggja sjálfstætt mat á það hvort í málinu séu uppfyllt skilyrði reglugerða varðandi eftirgjöf vörugjalds. Ekki sé hægt að líða tollstjóra að reiða sig alfarið á gjörðir og misgjörðir annars embættis, þ.e. embættis ríkisskattstjóra.

Þá gerir kærandi einnig þá kröfu að dráttarvextir, vegna þeirrar kröfu sem myndaðist við það að honum var gert að greiða eftirgefið vörugjald af leigubifreiðinni, verði felldir niður.

Umsögn tollstjóra.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn tollstjóra með bréfi, dags. 12. janúar 2015. Í umsögn tollstjóra, dags. 4. febrúar 2015, kemur eftirfarandi fram:

„Krafa um ógildingu úrskurðar tollstjóra nr. 2/2012.
Kærandi gerir þá kröfu að úrskurður tollstjóra nr. 2/2012 verði felldur úr gildi. Tollstjóri vill vekja athygli á því að umræddum úrskurði hefur þegar verið skotið til ríkistollanefndar með bréfi, dags. 19. mars 2012. Samkvæmt þágildandi 118. gr. tollalaga, nr. 88/2005, var úrskurður ríkistollanefndar fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Sama á við um úrskurði yfirskattanefndar, sbr. 15. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, en í dag er kærum skv. 118. gr. tollalaga beint til þeirrar nefndar. Tollstjóri fer því fram á að kröfu kæranda um að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi verði vísað frá.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu tollstjóra fer embættið fram á það að kröfu kæranda verði hafnað með þeim rökum sem að neðan greinir.

Tollstjóri vísar til 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum. þar eru talin upp þau skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta lækkun á vörugjaldi á leigubifreiðum. Vísar tollstjóri sérstaklega til 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. þar sem segir að rétthafi lækkunar vörugjalds skuli hafa í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, næsta almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Skal rétthafi senda tollstjóra stafest endurrit af skattskýrslu næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt, til sönnunar á tekjum rétthafa.

Fyrir árið 2008 var gerð sú krafa að rétthafi skyldi að lágmarki telja fram 1.864.800 kr. í reiknað endurgjald af akstri leigubifreiðar. Samkvæmt skattframtali 2009 fyrir árið 2008 taldi kærandi fram 888.000 kr. í reiknað endurgjald. Er þessi fjárhæð 976.800 kr. undir því lágmarki sem kveðið er á um. Kærandi gerir sem fyrr segir kröfu um að tollstóri leggi sjálfstætt mat á það hvort kærandi uppfylli skilyrði niðurfellingar. Telur hann að tollstjóri skuli leggja sjálfstætt mat á það hvort að rekstur kæranda árið 2008 hafi náð því umfangi, að reiknað endurgjald hafi getað náð lágmarksfjárhæð þeirri sem tilgreind er. Tollstjóri áréttar að skv. 3. mgr. 15. gr. skal tollstjóri byggja ákvörðun sína á staðfestu endurriti af skattskýrslu rétthafa. Þá bendir tollstjóri á að berist tollstjóra ekki framangreint skattframtal skuli hann innheimta eftirgefið vörugjald að fullu sbr. sama ákvæði. Er því ljóst að tollstjóra er ekki heimilt að horfa til annars en staðfestrar skattskýrslu.

Í sömu grein er að finna heimild fyrir tollstjóra til að fallast á lægra endurgjald en reglur kveða á um liggi fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur er varða t.d. alvarleg veikindi eða ef bifreið ónýtist. Tollstjóri fer við túlkun sína á þeirri undantekningu í samræmi við túlkun ríkistollanefndar sem fram kemur í úrskurði nr. 10/2010, bls. 2. Í úrskurðinum segir: „Fyrrgreind undanþága er sérstök undanþága frá skattskyldu. Skilyrði til uppfyllingar hennar ber þar af leiðandi að túlka þröngt í samræmi við viðtekin lögskýringarviðhorf. Því verður að telja rétt að einvörðungu sé hægt að líta til veikinda sem eru ófyrirséð og koma almennt upp eftir að lækkun vörugjalds hefur verið framkvæmd og verða til þess að undanþáguþegi er tímabundið alfarið óvinnufær.“ Kærandi hafði 75% örorkumat á því tímabili sem til skoðunar er, og hafði því skerta vinnufærni. Í samræmi við úrskurð ríkistollanefndar er þó ekki hægt að telja skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. uppfyllt. Er þar af leiðandi ekki hægt að fallast á lægra reiknað endurgjald en farið er fram á í fyrrgreindu ákvæði. Tollstjóri vísar að öðru leyti til hins kærða úrskurðar nr. 2/2012 sem hjálagður er þessu bréfi.

Krafa um niðurfellingu dráttarvaxta.
Eins og fram hefur komið var kæranda gert að greiða eftirgefið vörugjald af leigubifreið samkvæmt úrskurði tollstjóra, dags. 25. janúar 2012. Gjaldið var álagt 30. ágúst 2010 og nam 1.060.197 kr. Eftirstöðvar kröfunnar voru greiddar með síðustu greiðslu þann 19. nóvember 2014 og höfðu þá myndast dráttarvextir á kröfuna í rúm fjögur ár eða um 416.000 kr.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi búinn að reyna í tvígang að koma að breyttu skattframtali til ríkisskattstjóra vegna tekjuársins 2008, en var synjað um endurákvörðun í bæði skiptin. Eftir standa því úrskurðarorð tollstjóra í úrskurði, dags. 25. janúar 2012 og úrskurður ríkistollanefndar, í máli nr. 3/2012, þess efnis að kærandi uppfyllir ekki skilyrði til lækkunar vörugjalds. Eftirgefið vörugjald var því lagt á í samræmi við lög og reglur eins og nánar greinir hér ofar.

Með bréfi til tollstjóra, dags. 24. september 2014, óskaði kærandi eftir niðurfellingu dráttarvaxta eða verulegri lækkun þeirra vegna eftirgjafar vörugjaldsins. Með bréfi til kæranda, dags. 9. október 2014, var erindinu synjað. Skv. 7. mgr. 9. gr. þágildandi laga nr. 97/1987, um vörugjald, sbr. 1. mgr. 27. gr. lag nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., skal greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er sé krafa ekki greidd innan mánaðar frá gjalddaga. Tollstjóri er bundinn af jafnræðisreglu stjórnsýslu- og skattaréttar sem felur það í sér að fara ber með eins mál með sambærilegum hætti. Hvorki er að finna undantekningar í lögum nr. 29/1993 né öðrum skattalögum sem heimila lækkun eða niðurfellingu dráttarvaxta í tilvikum sem þessu. Það er því mat embættisins að staðfesta beri ákvörðun tollstjóra, dags. 9. október 2014.“

Umsögn ríkisskattstjóra.
Ráðuneytið óskaði eftir umsögn ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 12. janúar 2015. Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 27. janúar 2015, kemur eftirfarandi fram:

„Af kærunni má ráða að kærandi sé ósáttur við að dráttarvextir vegna skuldar á vörugjöldum hafi ekki verið felldir niður og telur synjunina megi leiða af úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. mars 2014.

Í tilvitnuðum úrskurði ríkisskattstjóra var erindi kæranda synjað á þeim forsendum að ekkert lægi fyrir sem benti til þess að skattframtal kæranda væri ekki í samræmi við ákvæði tekjuskattslaga. Í úrskurði ríkisskattstjóra kemur enn fremur eftirfarandi fram:

„Krafa um endurupptöku álagningar utan fresta hefur þannig ekki verið með öllu óheft eða takmarkalaus. Hefur almennt verið litið svo á að skattaðili hafi tekið bindandi ákvörðun um framtalsskil sín, sem fyrr segir. Þannig hefur t.d. ekki verið talið nægilegt að framteljandi telji að honum hefði verið hagstæðara að haga framtalsgerð sinni með öðrum hætti en hann gerði, hafi framtalsgerð á annað borð verið í samræmi við gildandi lagaákvæði.“

Þá segir enn fremur í úrskurðinum:

„Ljóst er að ákvæði 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum setur heimildum ríkisskattstjóra til breytinga á ákvörðun um skattstofna eða skattlagningu hömlur. þannig er gerð sú krafa að ríkisskattstjóri leggi sérstakt mat á hagsmuni skattaðila af því að fá ákvörðun breytt, auk þess sem ákveðin tímamörk eru sett og tekið er fram að beiðni skuli byggjast á nýjum gögnum og upplýsingum.“

Ríkisskattstjóri hefur engu við þann rökstuðning að bæta sem fram kemur í nefndum úrskurði og leyfir sér að vísa til þeirra forsendna sem liggja að baki þeirri ákvörðun sem tekin var.“

Forsendur og niðurstaða.
Eins og fram kemur í gögnum málsins skutuð þér úrskurði tollstjóra nr. 2/2012 til ríkistollanefndar með bréfi, dags. 19. mars 2012. Úrskurður ríkistollanefndar var fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi samkvæmt þágildandi 118. gr. tollalaga, nr. 88/2005. Það sama gildir um úrskurði yfirskattanefndar, sbr. 15. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, en nú er kærum skv. 118. gr. tollalaga beint til yfirskattanefndar.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að kröfu yðar, um að úrskurður tollstjóra nr. 2/2012 verði felldur úr gildi, beri að vísa frá.

Ákvæði 112. og 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt eru afdráttarlaus að því er varðar gjalddaga, eindaga og vexti vegna opinberra gjalda og er enga heimild að finna í lögunum til að víkja frá áskilnaði þeirra um greiðslu dráttarvaxta vegna vangreiðslu opinberra gjalda. Vanþekking á lagaákvæðum leysir skuldara ekki undan skyldu til greiðslu dráttarvaxta, samkvæmt gildandi lögum, standi hann ekki skil á greiðslu skattkröfu fyrir eindaga hennar. Umrædd lagaákvæði veita þannig afar takmarkað svigrúm til töku matskenndra ákvarðana á ívilnandi hátt.

Með hliðsjón af 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, telur ráðuneytið einungis heimilt að fella niður dráttarvexti ef unnt er að sýna fram á að um mistök hafi verið að ræða af hálfu innheimtumanns eða ríkisskattstjóra sem leitt hafi til þess að dráttarvextir hafi fallið á skattkröfu. Í greinargerð með 13. gr. frumvarps sem varð að vaxtalögum nr. 25/1987 (nú 7. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu), sbr. þingskjal 564 á 109. löggjafarþingi 1986-87, er m.a. að finna eftirfarandi umfjöllun:
„Í þessu ákvæði er lagt til að skuldara verði ekki gert að greiða dráttarvexti ef um viðtökudrátt af hálfu kröfuhafa er að ræða. Til þess að um viðtökudrátt geti verið að ræða þarf skuldari að hafa bæði vilja og getu til að greiða og hann þarf að hafa gert kröfuhafa löglegt greiðslutilboð eða lagt féð inn á geymslureikning skv. lögum nr. 9/1978. Ákvæði þetta tekur einnig til þeirra tilvika er skuldara er rétt að halda að sér höndum um greiðslu, t.d. vegna vanefnda, eftir atvikum fyrirsjáanlegra vanefnda, af hálfu kröfuhafa.“

Framangreint á ekki við í tilfelli yðar og með vísan til þess að gæta ber jafnræðis við innheimtu skattskulda, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telur ráðuneytið að ekki séu skilyrði til niðurfellingar dráttarvaxta í málinu.


Úrskurðarorð.
Kröfu um að úrskurður tollstjóra, nr. 2/2012, verði felldur úr gildi er vísað frá.
Ákvörðun tollstjóra, dags. 9. október 2014, um að hafna niðurfellingu dráttarvaxta er staðfest.



Fyrir hönd ráðherra




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum